Stafafura (Pinus contorta Dougl.)

Er harðgerð og hraðvaxta frumherjatrjátegund. Æskuvöxtur á bersvæði er miðlungsgóður en hægt að auka hann með viðeigandi jarðvinnslu.

Þolir trjátegunda best frostlent land og getur á slíkum stöðum vaxið upp meðan t.d. íslensk ilmbjörk skemmist og koðnar niður. Þolir illa mikið vindálag, sérstaklega ef vindur stendur af hafi (saltskemmdir). Skemmist einnig af sólbruna síðvetrar og eru því stafafuruskógar oft vöxtulegri í hlíðum sem snúa mót norðri.

Vex vel á rýru landi og jafnvel lítt grónu landi. Hentar því ágætlega til landgræðslu inn til landsins bæði sunnan og norðan heiða.

Bestu svæðin á Íslandi eru: Fljótsdalshérað innanvert, innsveitir Suðausturlands, Suðurlandsundirlendis og Borgarfjarðar ásamt austurhlíðum Skagafjarðar, innanverðum Eyjafirði og S.-Þingeyjarsýslu.

Fjölgar sér ríkulega náttúrulega með fræplöntum. Fræið berst stutt frá vaxtarstað (þungt fræ).

Borðviðarnýtingarhlutfall er lágt en bolir furunnar nýtast ágætlega í iðnvið og kurl.