Rússalerki (Larix sukaczewii Dylis)

Harðgerð og hraðvaxta frumherjatrjátegund. Æskuvöxtur er oftast mjög góður ef rétt land er valið og jarðvinnsla, þar sem hún á við.

Rússalerki er dæmigerð meginlandstrjátegund sem þrífst illa í hafrænu loftslagi. Þrif rússalerkis eru því bundin við Norðurland og Fljótsdalshérað. Í öðrum landshlutum á rússalerki erfitt uppdráttar þó á því finnist stöku undantekningar. Því er ekki mælt með gróðursetningu á rússalerki utan Norðurlands og Fljótsdalshéraðs.

Þolir trjátegunda best rýrt og lítt gróið land þó að vöxtur sé oft betri á miðlungsfrjósömu landi. Hentar því ágætlega til landgræðslu inn til landsins norðan heiða. Þolir heldur illa svæði þar sem hætta er á næturfrostum s.s. sléttur og dalbotna og einnig land með þéttum og köldum jarðvegi.

Bestu svæðin á Íslandi eru: Fljótsdalshérað innanvert, Langidalur og inndalir hans í Austur-Húnavatnssýslu, innanverður Skagafjörður, Eyjafjörður og S.-Þingeyjarsýsla.

Fjölgar sér takmarkað náttúrulega með fræplöntum. Fræið berst stutt frá vaxtarstað (þungt fræ).

Borðviðarnýtingarhlutfall er fremur lágt en bolir nýtast ágætlega í iðnvið og kurl. Borðviður er endingargóður og slitsterkur og því mjög verðmætur.