Landgerðir

Land er einungis flokkað í þrjár landgerðir og verður hver og einn notandi að meta sjálfur hvernig landið sem hann er að skoða skiptist í þessar landgerðir. Landgerðaflokkunin tekur mið af landgerðum í nýskógrækt þar sem munur er á mati á jafnaðarbindingu og losun.

  • Lítt gróið þurrlendi: Þurrlendi sem er með gróðurþekju undir 20-30%. Oftast mjög rýrt land en kann að bera ágætan trjávöxt hjá trjátegundum sem þola að vaxa í slíku landi. Einungis þær trjátegundir sem við teljum að geti þrifist og vaxið eðlilega í þessu landi eru valkvæðar í kolefnisreikninum. Talið er að binding í jarðvegi sé nokkru meiri en við gróðursetningu í grónara og frjósamara þurrlendi. Gert er ráð fyrir sömu jarðvegsbindingu og áætluð er í landgræðslu, 1,881 tonni CO2 á ha og ár.
  • Hálf- til fullgróið þurrlendi: Land sem er með gróðurþekju yfir 20-30%. Afar misjafnt land hvað frjósemi varðar. Allt frá því að vera mjög rýrt land yfir í mjög frjósamt land og er vöxtur trjátegundanna eftir því. Allar trjátegundir eru valkvæðar hér ef vaxtarskilyrðin bjóða upp á það. Gert er ráð fyrir 1,340 tonnum CO2 á ha og ár í bindingu í jarðvegi sem er byggt á innlendum rannsóknarniðurstöðum.
  • Framræst votlendi: Hér er gert ráð fyrir losun CO2 og þá bæði beinni losun vegna niðurbrots lífrænna efna í lífrænum jarðvegi og óbeinni losun vegna útskolunar uppleystra lífrænna efna úr jarðvegi. Notaðir eru alþjóðlegir stuðlar fyrir skóg og kjarrlendi á framræstu votlendi og er stuðullinn fyrir beina losun 1,357 tonn CO2 á ha og ár en fyrir óbeina losun 0,440 tonn CO2 á ha, samtals 1,797 tonn CO2 á ha og ár. Framræst votlendi losar líka metan (CH4) og hláturgas (N2O) og er sú losun metin 0,39 tonn CO2 – ígilda á ha og ár. Samtals er því losun frá jarðvegi í framræstu votlendi metin 2,187 tonn CO2 – ígilda á ha og ár. Framræst votlendi er oftast frjósamt land og hentar því betur tegundum sem krefjast frjósemi. Framræst votlendi getur þó verið erfitt í ræktun bæði vegna samkeppni annars gróðurs og frosthættu á vaxtartíma enda er þessa landgerð oft að finna í litlum halla þar sem kalt loft getur safnast saman.