Önnur binding/losun

Hér verður farið yfir aðra þætti en (jarðveg og trjágróður) sem geta valdið bindingu eða losun í nýskógrækt:

  • Losun frá jarðvegi vegna jarðvinnslu. Jarðvinnsla getur haft í för með sér losun frá jarðvegi og sópi (dauðum gróðri). Engar beinar mælingar eða rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi en sú aðferð sem er notuð við að meta jarðvegsbindingu inniheldur losun vegna jarðvinnslu þ.e. að borin eru saman kolefnisforði svæða utan skógar í hefðbundinni nýtingu og svæða í skógrækt þar sem jarðvinnslu hefur verið beitt. Kolefnisforði skógræktarsvæða hefur reynst geyma meira kolefni en sambærileg skóglaus svæði og kolefnisforðinn eykst með auknu aldri skógarins.
  • Binding í sópi. Sóp er skilgreint sem smágert dautt lífrænt efni sem liggur í skógarbotni. Rannsóknir hér á landi sýna að við nýskógrækt á sér stað binding í sópi. Hún hefur verið metin að jafnaði 0,517 tonn CO2á ha á ári frá gróðursetningu.
  • Losun frá dauðum við. Þegar skógurinn vex og er ekki grisjaður verða einhver tré undir í baráttunni um ljósið og deyja. Kolefnið sem var í lífmassa lifandi trjáa er þá í dauðum við. Þá flyst kolefni úr lífmassa lifandi trjáa yfir í dauðan við. Þetta gerist líka þegar skógar eru grisjaðir. Dauður viður getur bæði verið ofanjarðarhluti standandi dauðra trjáa eða trjábolir sem liggja í skógarbotni. Dauður viður getur líka verið neðanjarðar í stubbum og grófrótum dauðra og felldra trjáa. Kolefnisforðinn sem er í dauðum við eykst vanalega með aldri skóga eftir því sem fleiri dauð tré og rótarhnyðjur bætast í forðann. Forðinn rýrnar þó líka vegna niðurbrots. Það er okkar reynsla frá mælingum í ræktuðum skógum á Íslandi að nýskógar sem eru lítið eða ekki grisjaðir eru vanalega með ekkert eða mjög lítið af dauðum við.
  • Losun vegna áburðargjafar. Við áburðargjöf með köfnunarefnisáburði (köfnunarefni = N) verður uppgufun á N í formi N2O. Alþjóðlegur losunarstuðull er 0,01 kg N2O-N á hvert kg N í tilbúnum áburði. Eitt tonn af N í áburði er því að losa 10 kg af N í formi N2O. Það samsvarar 4,68 tonna CO2 losun.
  • Binding/losun í öðrum gróðri en trjám. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt töluverðar sveiflur í kolefnisforða í öðrum gróðri en trjám við nýskógrækt en til lengri tíma (50 ára) hefur hvorki orðið aukning eða minnkun í kolefnisforða annars gróðurs en trjáa í skógum. Því er hvorki gert ráð fyrir bindingu eða losum frá öðrum gróðri en trjám.