Skjólfar

Verandi eyland út í miðju Atlantshafi er Ísland vindasamt land. Skjól af landi getur því verið afar mikilvægt fyrir vöxt trjágróðurs. Á vindasömustu svæðunum getur gott landskjól skilið milli feigs og ófeigs í tilviki skógræktar. Í þessari fyrstu útgáfu Skógarkolefnisreiknis er gerður munur á grósku skjólgóðra og skjóllítilla svæða í þeim landshlutum þar sem landskjólið er áhrifaríkast að okkar mati. Til að lýsa skjóli eru notaðar staðlaðar aðferðir við mat á landskjóli. Innan skógræktarinnar hefur þetta mat verið kallað „landskjól“ eða „landskjólgráður“ en á ensku er fyrirbærið kallað TOPEX sem er stytting á „topographic exposure“. Í stuttu máli er mældur halli lands í heilum gráðum miðað við sjónarrönd í átta höfuðáttir (Norður, Norðaustur, Austur, Suðaustur, Suður, Suðvestur, Vestur og Norðvestur). Gráður fyrir hverja átt eru síðan lagðar saman og summan myndar landskjól. Þegar metið er við sjónarrönd geta gráður hverrar áttar verið frá 0 og fræðilega upp í 720. Hægt er að velja aðra matslengd en sjónarrönd og er þá oftast valin föst matslengd. Í þeim tilvikum getur skjólgráða áttar verið mínustala, t.d. þegar mælt er niður úr brekku. Hér á Íslandi hafa skógfræðingar mælt „skjólgráður“ og í verkefnunum Úttekt á skógræktarskilyrðum og Landsskógarúttekt hefur skjólgráða verið mæld bæði við sjónarrönd (kallað fjærskjól) og við 50 m fjarlægð frá mælistað (kallað nærskjól). Nánari upplýsingar um mat á landskjóli er að finna í eftirfarandi yfirlitsgrein.

Chapman L. (2000). Assessing topographic exposure. Meterological Applications, 7: 335-340

Þau svæði á Íslandi þar sem við viljum gera greinarmun á skjólgóðum og skjóllitlu landi eru; Austfirðir, V-Skaftafellssýsla (aðallega undir Eyjafjöllum), Suðurlandsundirlendi, Reykjanes, Hvalfjörður og Akranes, Borgarfjörður og Mýrar, Snæfellsnes og Hnappadalur og inndalir Þingeyjarsveitar. Áhrif skjólfars er mismunandi eftir trjátegundum og hæðarbilum lands. Með því að leggja saman fjærskjólgráðu og nærskjólgráðu x 0,5 fæst sæmilegt jafnaðargildi fyrir skjólfar. Staðir sem skiluðu góðum vexti fyrir stafafuru, sitkagreni og alaskaösp og töldust skjólgóðir á Vesturlandi, Suðurlandi og Austfjörðum í úttekt á skógræktarskilyrðum voru allir með slíkt skjólgildi frá 60 til 200 með miðgildi milli 60-79.