Alaskaösp (Populus trichocarpa Torr. & Gray)

Vex hratt og bindur mikið. Verður ásamt sitkagreni stórvöxnust trjátegunda á Íslandi. Æskuvöxtur er hraður og afföll lítil ef réttur klónn og undirbúningur lands er valinn.

Getur vaxið við hafrænt loftslag og er harðgerð. Bestu svæðin á Íslandi eru Fljótsdalshérað innanvert og Fljótshlíð á Suðurlandi..

Þarf mjög frjósamt land og bestur er vöxturinn á frjósömu landi, gjarnan framræstu. Miðlungsvöxt er hægt að fá á valllendi en á rýrara landi verður vöxtur lítill og öspin koðnar fljótt niður. Undantekning eru ógrónar áreyrar þar sem ösp getur náð sæmilegum vexti, þá með áburðargjöf eða í lúpínustóði. Dæmi um þetta eru aspir á Markarfljótsaurum.

Alaskaösp getur fjölgað sér með stubbaskotum og rótarskotum í næsta nágrenni við móðurtrén. Fræplöntur af alaskaösp eru sjaldgæfar en í seinni tíð hefur þeim fjölgað töluvert, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Fræ er létt og fiðrað og berst um langan veg.

Nýtingarhlutfall borðviðar og iðnviðar er hátt.